"We don't see things as they are, we see things as we are." - Anais Nin.
14.7.2009 | 20:20
Ég var að lesa fréttir og blogg með Skjá Einn í bakgrunninum og heyrði allt í einu þessa tilvitnun. Já í þættinum "Skólaklíkur (Greek)" um háskólalíf í Bandaríkjunum. Frekar einfaldur þáttur.
Jæja, nema það að þessi tilvitnun fékk mig til þess að hugsa um sjálfan mig og hversu miklu máli það skiptir mig að Ísland verði ekki meðlimur í Evrópusambandinu. Fékk mig til þess að hugsa um af hverju þetta skiptir mig svo miklu máli og af hverju ég sé þetta mál eins og ég sé það. Svo miklu að ég hef verið kallaður SIF (Single Issue Fanatic) .. sem ég auðvitað ekki er ... þau bara hafa ekki verið mörg málefnin sem skipta mig nægilega miklu máli til þess að ég skipti mér af opinberleg
En þessi setning og þá sérstaklega "..we see things as we are." gerði mér ljóst að ég sé þetta mál svona vegna þess hvernig ég er. Ég er sjálfstæður og vil vera það áfram, ég vil sjálfur taka þær ákvarðanir sem skipta mestu máli í mínu lífi og ég tel sjálfan mig best hæfan til þess. Ég tel sjálfan mig fullfæran um að haga mínu lífi þannig að ég verði sáttur og nái góðum árangri í þeim verkefnum sem ég tek að mér. Ég myndi seint vilja vera í þeirri aðstöðu að þurfa að sækja um styrki til þess að framfleyta mér. Ég tel mig um leið fullfæran um að eiga samskipti við alla meðlimi þjóðfélagsins sem ég bý í sem er ekki bara Ísland heldur samfélag allra manna á jörðinni.
Um þetta snýst aðildin að ESB fyrir mér. Sjálfstæði, fullveldi, sjálfsákvörðunarréttinn og trú mína á það að við íslendingar séum best færir um að stjórna og stýra okkar eigin málum. Að við séum færir um að eiga samskipti við allar þjóðir í heiminum, jafnt þær sem eru í ESB og þær sem eru það ekki. Auðvitað getum við lært af öðrum alveg eins og við sem einstaklingar lærum af öðrum.
Án þess að vilja endilega merkja alla sem vilja sjá Ísland meðlim Evrópusambandsins sem fólk sem hefur gefist upp, þá spyr ég mig samt þeirrar spurningar hvort þetta fólk hafi misst trúna á sjálft sig, gefist upp og treysti sér ekki til þess að stjórna eigin lífi. Auðvitað veit ég að það getur ekki verið, þetta fólk telur einhverra hluta vegna aðra færari um að stýra okkar málum og telur okkur betur borgið í sambandinu. Varla geta ástæðurnar verið aðrar.
Mér finnst þetta leiðinlegt og sorglegt.
Athugasemdir
Ég er ekki frá því að sumir sem vilja Ísland inn í ESB sjá einmitt þann félagsskap eins og hann var, en ekki eins og hann er.
Bæði í Danmörku og Bretlandi kvartar fólk yfir því að hafa gengið í efnahagsbandalag en sitji núna í rammpólitísku sambandsríki. Hér er ESB iðulega kynnt sem "lausn í efnahagsmálum" og stundum látið eins og þetta sé bara fríverslunarsamningur.
Kannski var efnahagsbandalagið gamla í lagi, en Ísland á ekkert erindi í Evrópusamband dagsins í dag. Og það mun halda áfram að þróast og breytast. Þær breytingar sem eru í sjónmáli (Lissabon) eru fámennum ríkjum ekki í hag. Og alls ekki ef atvinnuhættir eru gjörólíkir normi sambandsins. Samt er enn talað um sambandið eins og það sé óbreytt frá því að Maastricht tók gildi og Íslands/EFTA gerði EES samninginn.
Haraldur Hansson, 15.7.2009 kl. 10:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.