Hættum uppbyggingu framhaldsstigs íslenskra háskóla.

 Þá er það menntunin í landinu.  Við erum öll sammála um það að það sé hagkvæmt fyrir þjóðina að auka menntunarstig þjóðarinnar og bæta menntunina.  Takið eftir því að þetta er ekki sami hluturinn.  Við þurfum að bæta menntunina í landinu alveg frá grunnskólastiginu.  Við þurfum að þyngja námið og ætlast til meira af börnunum okkar .. þau geta meira og eins og námið er uppbyggt í dag er ekki verið að ná því besta fram í einstaklingunum.  Til þess að gera þetta þurfum við að stykja nám kennara og borga þeim líka betur.  Við megum þess vegna alveg eyða meiri peningum í styrkingu og eflingu náms á grunnskóla og menntaskólastiginu.

Við þurfum líka að auka menntunina, hvetja fleiri til þess að mennta sig meira og umhverfið þarf að hvetja til þess.  Aukin menntun sem kostar tíma og peninga á þá einnig að skila sér í betri launum og auknum möguleikum. 

Mikið var básúnað um daginn um ætlun menntamálaráðherra að veita miklu fé til uppbyggingar Háskóla Íslands og þá sérstaklega á framhaldsnámi háskólans, þ.e.a.s. eflingu meistara og doktorsnáms.  Ég er þeirrar skoðunar að þarna sé meiri háttar axarskaft á ferðinni.  Við eigum alls ekki að efla þetta stig náms hér á Íslandi.

Í stað þess eigum við að efla möguleika íslendinga til háskólamenntunar á framhaldsstigi erlendis.  Við höfum í áratugi notið góðs af þeim fjölbreytileika og víðsýni sem okkar námsfólk kemur með sér heim eftir nám og búsetu erlendis á mörgum mismunandi menningarheimum.  Við erum með góðar heimtur á íslendingum sem fara erlendis til náms og þetta fók kemur heim með góða menntun og reynslu frá Bandaríkjunum, Bretlandi, norðurlöndunum, Þýskalandi, Frakklandi og mörgum öðrum löndum.  Við nám og búsetu erlendis öðlast ekki bara námsmennirnir víðari sýn á heiminn og öfluga þekkingu, heldur íslenskt þjóðfélag líka við heimkomuna.

 Við það að efla til muna framhaldsmenntun á háskólastigi hér heima munu færri fara erlendis og við enda uppi með þröngsýnna og einsleitara þjóðfélag sem þá á einnig erfiðara með að meðhöndla nýja íslendinga sem fæðast hafa í öðrum löndum og byrjað sitt líf sem ríkisborgara annarra ríkja en íslands.

Næst mun ég svo taka fyrir hugtakið jöfnuð sem er gott og jákvætt hugtak en eitthvað sem við þurfum líka að varast.

Kveðja,

 Jón Árni


Að sjálfsögðu eigum við að virkja áfram.

Alveg er ég viss um það að allir þeir sem nú tala mest um grænt, náttúruna og skyldu okkar við börnin okkar og komandi kynslóðir meina vel, en ég er líka alveg viss um það að mikill meirihluti græna fólksins er leiksoppur í flóði múgsefjunnar sem skellur á okkur eins og dagleg flóðbylgja og fæstir hafa leitt hugann að þessu í alvöru. Það er tíska að vera grænn og hálfdónalegt að vera það ekki. Þetta græna tal allt saman er farið að hljóma eins og Tom Cruise á símsvaranum hjá Posh Beckham, jarmandi um Vísindakirkjuna, tilraun til heilaþvottar.

Í mínum huga er það mesti misskilningur að það að virkja þær orkulindir sem okkur standa til boða geri landið grátt. Ég trúi því, já trúi því af því að ég get ekki sannað það frekar en aðrir afsannað, að það að beisla alla orkuna sem núna flæðir til sjávar eða ólgar í jörðu niðri, færi okkur gnótt tækifæra til þess að skapa atvinnu og styðja áframhaldandi vöxt íslensks þjóðfélags. Ég trúi því líka að með þeim ógnarhraða sem tækniframfarir eru á þá munum við jarðarbúar vera farnir að beisla sólarorkuna og sjávaröflin í ríkum mæli, kjarnasamruna á hættuminni hátt og já, verða búin að finna nýjar leiðir til orkuframleiðslu sem okkar hafa í dag ekki einu sinni komið til hugar. Þess vegna eigum við óhrædd að virkja í dag og ekki hafa áhyggjur af einhverju stórastoppi þegar við höfum virkjað þær orkulindir sem við teljum okkur geta beislað í dag. Við eigum að nýta tækifærin núna en ekki seinna. Seinna koma önnur tækifæri.

Okkur fjölgar hratt íslendingum, bæði á þennan venjulega máta sem sumir flokka undir klám :-), og svo líka á hinn mátann sem flokkast undir auðgun DNA stofns íslendinga í formi aðfluttra. Þetta fólk þarf allt saman atvinnu, tækifæri, orku og í sig og á. Ef við viljum halda áfram vextinum og halda núverandi lífsmáta og gæðum eða auka þau þá þarf ýmislegt til. Margir segja að við getum bara komið upp þekkingariðnaði og útrásarfyrirtækjum. En þar er líka við ramman reip að draga. Hversu marga banka getum við rekið í útrás? Nú þegar í dag er skortur á fólki með tækni og hugbúnaðarþekkingu og slegist um það hugbúnaðarfólk sem til er í landinu. Ekki er heldur um það að ræða að stóriðjan ræni þekkingariðnaðinn starfsfólki. Þetta er alls ekki spurning um stóriðju eða eitthvað annað eins og þekkingariðnað. Það er alveg hægt að styðja við uppbyggingu á ýmsum sviðum þó við séum með stóriðju í landinu og aukum við hana, og það eigum við að gera. Við eigum að auka og bæta menntun í landinu og styðja þannig undir sköpun nýrra tækifæri og nýtingu hugmynda. Það þýðir samt ekki að við þurfum að stöðva uppbyggingu í dag og virkjun orkulinda og nýtingu.

Ef öll þessi orka sem fer í dag í græna umræðu og baráttu á móti hinu og á móti þessu færi í jákvæða skapandi uppbygginu þá stæðum við miklu betur.

Á morgun skal ég svo segja ykkur af hverju við eigum ekki að eyða of miklum peningum og orku í að byggja upp framhaldsstig í háskólunum okkar en samt auka við og efla menntun í landinu.

Jón Árni


Mannréttindanefnd Reykjavíkurborgar

 Alveg finnst mér merkilegt að það skuli alltaf koma í hlut okkar sem erum fyrir jafnrétti en erum ekki feministar, að benda á öfgarnar sem fram koma í baráttunni fyrir mannréttindum og jafnrétti.  En líklega er það bara eðlilegt, mörgum finnast öfgarnar nauðsynlegt verkfæri en þar er ég algerlega ósammála.

Mannréttindanefnd starfar í umboði borgarráðs og er ráðgefandi fyrir borgaryfirvöld um málefni sem varða verksvið hennar sem byggir á jafnræðisreglunni og miðar að því að allir menn fái notið mannréttinda án tillits til uppruna, þjóðernis, litarháttar, trúarbragða, stjórnmálaskoðana, kynferðis, kynhneigðar, aldurs, efnahags, ætternis, fötlunar, heilsufars eða annarrar stöðu.

 Nefndin er skipuð fimm fulltrúum kosnum af borgarstjórn og jafnmörgum til vara.

 Nú er það þannig að allir fimm fulltrúarnir eru konur og fjórir af fimm varamönnum eru konur.

 Alveg er ég viss um það að nefndin starfar af heilindum en ég er líka jafnviss um það að ef í henni sætu bara karlmenn þá yrði allt vitlaust í feminista og kvennahreyfingum og hrópað á óréttlæti og fullyrt að nefndin gæti einfaldlega ekki starfað í þágu jafnréttis með einungis karlmenn innanborðs.

Hvað haldið þið? 

http://www.rvk.is/DesktopDefault.aspx/tabid-1487

Kveðja,

 Jón Árni


Umhverfisvernd. Feminismi. Múgsefjun.

Hún er ótrúleg þessi pólitíska múgsefjing sem hefur gripið um sig.  Nú ætla allir að vera grænir, allir að vera feministar, allir að vera á móti klámi og svo framvegis og framvegis.  Það mætti halda að í kosningunum í vor fengju bara konur að kjósa og það sem meira er, bara konur sem líta svo á að karlmenn séu af hinu illa.

Mér finnst alveg vera kominn tími á það að karlmenn, og konur sem vilja vera konur án þess að það sé glæpur, segi stop, að nú sé nóg komið af rugli.  Það er alveg útilokað að við, þessi mikli meirihluti í landinu, hingað til sá þögli, látum þessi tvo múgsefjandi hugtök, umhverfisvernd og feminisma, áfram tröllríða öllu þjóðfélaginu eins og undanfarnar vikur og mánuði.

Mér finnst alveg spurning hvort ekki þurfi að endurskilgreina bæði orðin.

Umhverfisvernd sem í sjálfu sér er jákvætt orð hefur verið hertekið af fólki sem virðist alfarið vera á móti framförum og þá sérstaklega vitrænni umræðu.  Það fólk sem vogar sér að hafa aðra skoðun en þá að nú eigi að hætta öllum virkjanaframkvæmdum, vegalagningu og álframleiðslu eru bara stimplaðir alveg ga ga, og svo er ekkert hægt að ræða málin.

Eins er komið fyrir fyrirbærinu feminisma sem illu heilli er farið að standa fyrir það að allir karlmenn séu ofbeldismenn, háðir klámi og vilji bara kaupa og selja konur í kynferðislegum tilgangi.

Ofstopinn er þvílíkur og heiftin, að það mætti alveg spyrja hvort orðið feminismi ætti ekki að fara að flokkast með orðum eins og fasisma og nasisma.

Já, nú er nóg komið.

Jón Árni

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband