Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2009

Ingibjörg Sólrún var búin að semja um Icesave.

Mér finnst sérstakt hvað vonbrigði Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur með minni aðkomu ESB að Icesave samningnum en hún átti von á hafa vakið lítil viðbrögð. Mér þykja þessi ummæli hennar benda til þess að hún hafi verið búin að leggja línurnar með aðkomu ESB að Icesave á einhvern þann hátt að ESB aðstoðaði Ísland eða tæki á sig einhvern hluta ábyrgðarinnar og þá væntanlega í staðinn fyrir aðildarumsókn Íslands í ESB.

Auðvitað vill ESB Ísland inn og Ingibjörg hefur talið vera hægt að semja betur í tengslum við aðildarumsókn.

En síðan lét samninganefnd Íslands í Icesave málinu taka sig algerlega í bakaríið og Englendingar og Hollendingar ásamt ESB sáu sér leik á borði, þurftu ekki að lofa neinu og það sem meira var;  uppgötvuðu að íslenska ríkistjórnin er til í að borga stórfé fyrir að komast í ESB.

 Nú var allt í einu ný staða á borðinu fyrir ESB, ekki þurfi að gera neitt fyrir Ísland, það var meira að segja hægt að láta þá borga stórfé og koma á hnjánum alla leið til Brussel.   Mikið rosalega held ég að það sé hlegið að okkur í Hollandi, Bretlandi og í Brussel.   Og víðar.

Á sama tíma stendur Steingrímur J. eins og þurs og fullyrðir að engin tengsl séu á milli ESB aðildarumsóknar og Icesave.  Samt birtast hér fréttir hægri og vinstri, þar sem vitnað er í Carl Bildt hjá ESB og ráðherra í Hollandi svo einhverjir séu nefndir þar sem þeir upplýsa bara um tengsl og fyrirætlanir ESB.

Þetta er að verða algjör farsi og með ólíkindum að það skuli ennþá verið að ræða Icesave samkomulagið á Alþingi.  Það ætti að vera orðið öllum ljóst að samningnum verður að hafna og því fyrr því betra.

Og yrði honum ekki hafnað þá er jafn ljóst að þá væri gjá á milli þings og þjóðar og forsetinn gæti ekki skrifað undir. 


mbl.is Rýnir í gögn vegna Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB umsóknarferlið er flókið og viðamikið.

Umsóknarferlið er EKKI bara einfaldar aðildarviðræður sem snúast um að skoða hvað er í boði. 

Eftir því sem ég hef komist næst er umsóknarferlið þegar lögð er inn umsókn um aðild að ESB svona í hnotskurn.  Ég segi í hnotskurn af því hver þáttur fyrir sig er flókið ferli, viðamikið, kostnaðarsamt og mikil vinna. 

  1. Ísland leggur inn formlega umsókn um að ganga í ESB.
  2. Ráðherraráð ESB þarf að samþykkja umsókn.
  3. Búin til er “Accession Treaty” sem útlistar nákvæmlega hvernig Ísland tekur upp alla sameiginlega löggjöf ESB.
  4. Eftir að búið er að klára “Accession Treaty” er Ísland orðið formlegt “umsóknarríki”.
  5. Næst þarf Ísland að uppfylla öll svokölluð Kaupmannahafnarskilyrði frá 1993.
  6. Ráðherraráð ESB og Evrópuþingið þarf að samþykkja að aðildarviðræður hefjist.
  7. Nú fyrst byrja aðildarviðræður þar sem Ísland er einu megin við borðið og fulltrúar allra 27 ESB ríkja hinum megin.
  8. Þegar samningur er tilbúin þarf aftur samþykki Ráðherraráðs ESB og Evrópuþings.
  9. Nú byrjar Ísland að taka þátt í öllum störfum ESB og á sæti í nefndum en þó án atkvæðisréttar í flestum tilfellum þangað til skref 10. og 11. er framkvæmd.
  10. Næst er samningurinn við Ísland sendur til þjóðþinga allra 27 ESB ríkja og þurfa þau öll að samþykkja, ef eitt land mótmælir, t.d. Bretland eða Spánn ef veiðiréttur á Íslandi í sögulegu ljósi er ekki inni, þarf að fara aftur á skref 7.
  11. Samningurinn er borin undir Íslensku þjóðina, og ég nokkuð viss um að þjóðaratkvæðagreiðsla á þessu stigi er eitt af skilyrðum ESB.

Takið sérstaklega eftir lið númer 9.  Þar segir að Ísland fari að taka þátt í störfum ESB.  Það er sem sagt gert ráð fyrir því í ferlinu að viðkomandi þjóð sem sækir um sér í reynd búin að ákveða að hún vilji gerast meðlimur í sambandinu.

Miðað við þetta ferli sem líst er hér fyrir ofan, er þá ekki bara eðlilegt að við kynnum okkur málin betur og greiðum atkvæði sem þjóð um það hvort við viljum yfir höfuð fara í gegnum þetta?

Ekki viljum við eyða tíma og peningum allra ef við ætlum ekki þarna inn? 


"We don't see things as they are, we see things as we are." - Anais Nin.

Ég var að lesa fréttir og blogg með Skjá Einn í bakgrunninum og heyrði allt í einu þessa tilvitnun. Já í þættinum "Skólaklíkur (Greek)" um háskólalíf í Bandaríkjunum. Frekar einfaldur þáttur.

 Jæja, nema það að þessi tilvitnun fékk mig til þess að hugsa um sjálfan mig og hversu miklu máli það skiptir mig að Ísland verði ekki meðlimur í Evrópusambandinu. Fékk mig til þess að hugsa um af hverju þetta skiptir mig svo miklu máli og af hverju ég sé þetta mál eins og ég sé það. Svo miklu að ég hef verið kallaður SIF (Single Issue Fanatic) .. sem ég auðvitað ekki er ... þau bara hafa ekki verið mörg málefnin sem skipta mig nægilega miklu máli til þess að ég skipti mér af opinberleg

En þessi setning og þá sérstaklega "..we see things as we are." gerði mér ljóst að ég sé þetta mál svona vegna þess hvernig ég er. Ég er sjálfstæður og vil vera það áfram, ég vil sjálfur taka þær ákvarðanir sem skipta mestu máli í mínu lífi og ég tel sjálfan mig best hæfan til þess. Ég tel sjálfan mig fullfæran um að haga mínu lífi þannig að ég verði sáttur og nái góðum árangri í þeim verkefnum sem ég tek að mér. Ég myndi seint vilja vera í þeirri aðstöðu að þurfa að sækja um styrki til þess að framfleyta mér. Ég tel mig um leið fullfæran um að eiga samskipti við alla meðlimi þjóðfélagsins sem ég bý í sem er ekki bara Ísland heldur samfélag allra manna á jörðinni.

Um þetta snýst aðildin að ESB fyrir mér. Sjálfstæði, fullveldi, sjálfsákvörðunarréttinn og trú mína á það að við íslendingar séum best færir um að stjórna og stýra okkar eigin málum. Að við séum færir um að eiga samskipti við allar þjóðir í heiminum, jafnt þær sem eru í ESB og þær sem eru það ekki. Auðvitað getum við lært af öðrum alveg eins og við sem einstaklingar lærum af öðrum.

Án þess að vilja endilega merkja alla sem vilja sjá Ísland meðlim Evrópusambandsins sem fólk sem hefur gefist upp, þá spyr ég mig samt þeirrar spurningar hvort þetta fólk hafi misst trúna á sjálft sig, gefist upp og treysti sér ekki til þess að stjórna eigin lífi.  Auðvitað veit ég að það getur ekki verið, þetta fólk telur einhverra hluta vegna aðra færari um að stýra okkar málum og telur okkur betur borgið í sambandinu.  Varla geta ástæðurnar verið aðrar.

 Mér finnst þetta leiðinlegt og sorglegt. 


400+590=990


Hvað er í gangi? Af hverju er talað um 400 milljónir í fyrirsögn ef kosnaðurinn er 990 milljónir?

Er þetta ekki enn eitt dæmið um ESB áróður fjölmiðlanna?


mbl.is 400 milljóna beinn kostnaður við aðildarumsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óvissan með Icesave

 


mbl.is Icesave rætt á hollenska þinginu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar liggur óvissan ?

Samtök Atvinnulífsins ályktuðu nýlega að eyða þyrfti óvissu sem fyrst og telja samþykkt á ríkisábyrgð vegna Icesave leiðina til þess.

En í hverju liggur óvissan?  Varla í því að samþykkja ríkisábyrgð á samningi þar sem áhættan er öll okkar megin.  Samþykkjum við Icesave samningin upphefst hin raunverulega óvissa.

  • Munum við ná að selja einhverjar eignir Landsbankans?
  • Munum við nokkuð fá fyrir þær?
  • Þurfum við að standa í þeirri óvissu í 7 ár?
  • Hvernig eigum við að borga vextina sem hlaðast upp á meðan þegar þar að kemur?
  • Og höfuðstólinn?
  • Hver verður hann?
  • Munu ríkisstjórnir Breta og Hollendinga standa í vegi fyrir lagasetningum hér á landi?
  • Munu þær ganga í eignir Íslands ef við stöndum ekki í skilum með einhver lán?
  • Hvaða eignir?
  • Hvað má og hvað má ekki?

 Óvissan hellist fyrst yfir okkur við samþykkt á ríkisábyrgð, ekki öfugt.  Við þurfum að standa í lappirnar og það gerum við með því að hafna ábyrgð á þessum óvissu samningi.

 Þó ég sé alfarið þeirrar skoðunar að svona mál sem greinilega lögfróðir menn eru ekki sammála um, svona eftir því hvar þeir standa í pólitík, eigi að fara fyrir dómstóla, þá held ég að þjóðin myndi sætta sig við samning sem hljóðaði upp á að Bretar og Hollendingar fengju eignir Landsbankans ytra og málið dautt.


VG leiðir ESB umsókn .. magnað!

 

Alveg finnst mér magnað hvernig fyrir Vinstri Grænum er komið.   Samfylkingin situr alveg hljóð úti í horni að því virðist en er greinilega með böndin, axlabönd, belti og reiðtygin á Vinstri Grænum.

Nú er þannig komið fyrir Vinstri Grænum að þrátt fyrir að vera eini flokkurinn sem lýsti yfir afdráttarlaust fyrir kosningar að ekki kæmi til greina að sækja um aðild að ESB, þá leiða Vinstri Græn núna baráttuna fyrir innlimun Íslands í Evrópuríkið.

Vinstri Græn með Árna Þór og Steingrím í fararbroddi eru núna að setja það fyrir ríkisstjórnina að hún sæki um aðild að Evrópusambandinu.

 Samhliða þessu tekur Steingrímur á sig nánast einn og alfarið baráttuna fyrir samþykki Alþingis á ríkisábyrgð vegna Icesave og ekkert heyrist í Samfylkingunni.  Hún situr bara og togar í spottana og lætur VG um skítverkin.

Hvenær ætlar grasrótin í Vinstri Grænum að rísa upp á afturfæturna og láta í sér heyra?  Ætlar baráttufólkið í VG virkilega að láta kúga sig í beinni útsendingu í öllum meiriháttarmálum?

 


mbl.is Skrifar undir með fyrirvara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skulu játningar ávallt standa?

 Nú hafa Icesave-liðar hrakist úr einu víginu í annað þar til það eitt virðist eftir að fyrri stjórnvöld hafi skuldbundið íslendinga með því að játast undir ábyrgð vegna Icesave.  Allt snýst núna um að standa við orð og gerðir fyrri stjórnvalda.  Eins skringilegt og það virðist er síðasta haldreipi SJS og félaga, orð og játningar Sjálfstæðis og Samfylkingar liða við völd.

 Nú er það gott og gilt að siðferðilega ber manni að standa við eigin orð.   En segjum að ég væri nú í þessari líka svakalegu veislu þar sem allir skemmtu sér konunglega og í góðu stuði, svona allavega á yfirborðinu.   Segjum svo að vegna gerða minna í veislunni, mjög líklega löglegra gjörða, verði nokkrir einstaklingar fyrir verulegum fjárhagslegum skaða og veislan öll leysist upp í mikilli ringulreið.  Í kjölfarið og undir miklu álagi þar sem allir tala hátt og mikið og fæstir vita samt hvað raunverulega gerðist, játast ég undir þá ábyrgð að ég hafi valdið skaðanum og um leið að ég muni bæta skaðann.   

 Þegar um hægist og róast verður mér ljóst að mögulega hafi ég ekkert ólöglegt hafst að og þótt skaði hafi orðið af þá virðist sem ábyrgðin liggi víðar en hjá mér og meðal annars hjá öllum þeim sem þátt tóku í veislunni, sem og þeim sem gáfu leyfi fyrir veislunni og því sem þar fór fram.  Lögfróðir menn margir segja mér að ekki sé endilega ljóst að mér beri skylda til þess að bæta skaðann enda geti ég það jafnvel ekki.  Eðlilegast sé fyrir alla aðila að leitað sé til dómstóla til þess að fá úr því skorið hvernig mál raunverulega standi.

 Nú er spurningin auðvitað þessi:  Ber mér að standa við fyrri játningu eða er mér siðferðilega stætt á þvi að leita réttar míns?  Svari nú hver fyrir sig.

 Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að sú vestræna menning sem við öllum búum við ætlist til þess að farið sé með vafamál sem þessi fyrir dómstóla til þess einfaldlega að fá úr því skorið hvar ábyrgin liggi og hvernig mögulega skuli refsa þeim ábyrgu og hvernig skuli bæta skaðann. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband